SPURNINGAR OG SVÖR

Af hverju er verið að skora á stjórnvöld? Af hverju ekki á fyrirtæki og einstaklinga?

Vissulega eigum við ekki að einblína á að stjórnvöld eigi að bjarga öllu.

Íslenska Gámafélagið hefur undanfarin 15 ár aðstoðað fyrirtæki og einstaklinga til að takmarka magn úrgangs með því að bjóða upp á lausnir í flokkun svo hægt sé að endurnýta og endurvinna það sem til fellur.

Núna eru 12 sveitarfélög sem flokka úrgang í þrjár tunnur í þjónustu Íslenska Gámafélagsins.

Við höfum því skorað á einstaklinga og fyrirtæki í langan tíma. Það eru hins vegar stjórnvöld sem leggja línurnar. Með því að setja auknar kröfur geta þau fengið okkur til að breyta hegðun okkar til hins betra, t.d. fengið okkur til að flokka meira.

Sem dæmi um breytta hegðun vegna kröfu frá stjórnvöldum má nefna reykingabann og bílbeltanotkun. Nú finnst okkur sjálfsagt að spenna beltin þegar við leggjum af stað og við reykjum ekki innandyra í dag.

Hvað er slæmt við það að urða?

Urðun sorps hefur í för með sér mengunarhættu, þar sem úrgangsefni og afleiður þeirra geta borist í vatn og loft, einnig getur jarðvegur mengast og orðið ónothæfur til tiltekinnar landnotkunar, t.d. til ræktunar eða ábúðar. Urðunarstaðir þurfa enn fremur mikið landssvæði og valda oft og tíðum lyktar- og sjónmengun. Það getur líka verið flókið að finna nýja urðunarstaði vegna ofangreindra atriða.

Myndun metans á urðunarstöðum er einnig stór mengunarvaldur. Metan er skaðleg gróðurhúsalofttegund og á stóran þátt í hlýnun jarðar ef það nær að streyma óhindrað frá urðunarstöðunum. Nýting metans sem safnað er á urðunarstöðum er takmörkuð.

Hvað var gert við úrganginn áður en byrjað var að urða?

Áður en urðun hófst var úrgangur brenndur við opna brennslu. Við opna brennslu komast eiturefnin óhindrað út í andrúmsloftið og engin orka nýtist.

Einnig var sorpi víða sturtað beint í sjóinn.

Hvað eru margir urðunarstaðir á Íslandi (virkir og lokaðir)?

Opnir urðunarstaðir eru u.þ.b. 15 talsins.

Urðunarstaðir sem eru lokaðir og teljast sem ónýtt land næsta árhundrað eru um tvöfalt fleiri.

Hversu mikið magn er urðað á ári hverju?

Nálægt 220 þúsund tonnum skv. Umhverfisstofnun

Sjá nánar

Af hverju að flokka?

Allir hlutir og umbúðir sem við kaupum er búið til úr hráefnum sem sótt hafa verið úr náttúrunni. Með því að endurvinna sem mest spörum við auðlindir og þurfum að taka minna frá náttúrunni. Með efnislegri endurvinnslu er bæði hráefni og orka nýtt. Við endurvinnslu hráefna þarf mun minni orku og vatn en við frumvinnslu þeirra.

Kostir flokkunar:

Hráefnið nýtist í nýjar vörur

Auðlindir sparast

Orka sparast

Vatn sparast

Minna magn af almennu sorpi

En sorpbrennslan?

Af hverju byggjum við ekki sorpbrennslu á Íslandi?

Sorpbrennslur nýtast sem orkuver í löndum sem þurfa að fá orku frá óendurnýjanlegum auðlindum eins og t.d. kolum eða olíu. Orkuvinnsla úr kolum og olíu er mengandi. Með því að framleiða orku úr sorpi fæst orka úr hráefni sem að öðru leyti nýtist ekki. Í viðurkenndum sorpbrennslum í Evrópu eru miklar kröfur um hreinsibúnað til að lágmarka mengun frá útblæstri.

Á Íslandi fáum við næga hreina og ódýra orku frá endurnýjanlegum auðlindum. Sorpbrennslur eru dýrar í rekstri og kostnaður við sorpbrennslu hér á landi væri of mikill fyrir fámenna þjóð. Það myndi skila sér í mun hærri förgunargjöldum. Orkan sem við fengjum úr sorpbrennslunni yrði einnig dýrari en sú orka sem við fáum í dag.

Á köldum svæðum á Íslandi gæti verið vænlegt að setja upp sorpbrennslur þar sem skortur getur verið á annarri orku. Kostnaðurinn við slíka brennslu yrði þó væntanlega of mikill þar sem að rekstur slíkrar brennslu er flókinn og mengunarvarnarbúnaður sem kröfur eru gerðar um er afar dýr. Þá yrði úrgangsmagnið heldur ekki nægjanlegt til að halda slíkri brennslu gangandi á arðbæran hátt.

Á Kirkjubæjarklaustri og Ísafirði var sorpbrennslum lokað fyrir nokkrum árum þar sem mengunarbúnaður uppfyllti ekki kröfur og mengun fannst í nágrenni þeirra. Ekki þótti forsvaranlegt að halda þeim opnum vegna mikils kostnaðar við hreinsibúnaðinn.

Af hverju að flokka ef sorpið er brennt?

Allir hlutir og umbúðir sem við kaupum eru búnir til úr hráefnum sem sótt hafa verið úr náttúrunni. Með því að endurvinna sem mest þurfum við að taka minna frá náttúrunni.

Með efnislegri endurvinnslu er bæði hráefni og orka nýtt.

Með orkuvinnslu nýtist þó orka úr óendurvinnanlegum úrgangi.

Með urðun nýtist ekkert.

Það er því mjög mikilvægt að halda áfram að flokka allt sem hægt er að endurvinna.

Kostir flokkunar:

Hráefnið nýtist í nýjar vörur

Auðlindir sparast

Orka sparast

Vatn sparast

Dregur úr magni af almennu sorpi

Lang best er að koma í veg fyrir myndun úrgangs með því að draga úr neyslu og kaupa minna.

Þegar hlutur er keyptur, er rétt að velta fyrir sér notagildinu og úr hverju hluturinn er gerður.

Er hluturinn margnota eða einnota?

Er hann úr endurvinnanlegu hráefni eða ekki?

Þegar við þurfum að losa okkur við hlutinn gæti hann nýst öðrum.

Ef hluturinn nýtist ekki öðrum má setja hann í endurvinnslu.

Ef hann er ekki endurvinnanlegur þarf hann að fara með almennu sorpi.

Af hverju er orkuvinnsla betri en urðun?

Orkuvinnsla úrgangs er skárri en urðun því við orkuvinnsluna er verið að nýta orku sem falin er í úrganginum til að hita vatn og framleiða rafmagn á svæðum sem annars þyrftu að brenna olíu og kolum til framleiðslunnar. En með urðun nýtist þessa orka ekki neitt.

Mengar sorpbrennsla meira en urðun?

Urðun sorps hefur í för með sér mengunarhættu, þar sem úrgangsefni og afleiður þeirra geta borist í vatn og loft, einnig getur jarðvegur mengast og orðið ónothæfur til tiltekinnar landnotkunar, t.d. til ræktunar eða ábúðar. Urðunarstaðir þurfa enn fremur mikil landssvæði og valda oft á tíðum lyktar- og sjónmengun. Það getur líka verið flókið að finna nýja urðunarstaði vegna ofangreindra atriða.

Myndun metans á urðunarstöðum er einnig stór mengunarvaldur. En metan er skaðleg gróðurhúsalofttegund og á stóran þátt í hlýnun jarðar ef það nær að streyma óhindrað frá urðunarstöðunum. Nýting metans sem safnað er á urðunarstöðum er takmörkuð.

Kröfur um mengunarvarnarbúnað fyrir sorpbrennslur eru miklar en þær eru ekki settar að óþörfu því að í dag er hægt að hreinsa u.þ.b. 95–98% af skaðlegum efnum úr reyknum frá brennslunum fyrir utan CO2.

Afhverju að flytja sorpið út til annarra landa – við eigum að sjá um okkar rusl sjálf!

Urðun er alltaf versti kosturinn. Nú stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd að urðunarstaðirnir okkar eru að fyllast og þurfum við því að finna nýjar lausnir. Þau svæði sem notuð hafa verið fyrir urðunarstaði nýtast ekki í a.m.k. hundrað ár eftir lokun.

Erfitt er að finna nýja staði þar sem hægt er að urða sorp, enda vilja fæstir hafa urðunarstað í nágrenni við sig.

Best væri að við sæjum um okkar úrgang sjálf eins og hægt er. Vegna smæðar íslensku þjóðarinnar hefur það ekki svarað kostnaði nema að einhverju leyti.

Sá úrgangur sem við sjáum um sjálf í dag, og getum aukið, er m.a. matarleifar sem nýtast í moltu, timbur, eitthvað af plasti o.fl.